Aðallinn veiðir sér til gamans

Benedikt Jóhannesson

Veiðgjald á Íslandsmiðum og í ám og vötnum

Útgerðarmenn telja að fiskimiðin séu þeirra eign. Lagaákvæðið um „sameign þjóðarinnar“ sé merkingarlaust. Stjórnmálamenn hafa í áratugi úthlutað lokuðum hópi vina sinna veiðiheimildum, fyrst endurgjaldslaust og svo gegn málamyndagjaldi. Þess vegna séu miðin eign útgerðaraðalsins og erfast eins og aðalstign í Bretlandi.

Kvótakerfinu hefur verið líkt við íbúð sem eigandinn lánar auralitlum námsmanni, án endurgjalds. Eftir próflok byrjar neminn að borga smá fjárhæð til þess að gerningurinn líti ekki út eins og ölmusa. Ákveður svo að leigja frá sér herbergi á markaðsverði, sem er miklu hærra að það sem hann greiðir eigandanum. Eftir nokkur ár afræður neminn útskrifaði að selja eitt herbergi og loks íbúðina alla, þegar verð á markaði er hagstætt. Þegar velgjörðarmaður hans kvartar, hlær íbúðargreifinn og bendir á að hann hafi með tímanum eignast íbúðarréttinn, en nýi kaupandinn muni halda áfram að borga fyrri eiganda þetta lítilræði sem hefð sé komin á.

Til er annars konar veiði á Íslandi, sportveiði sem stunduð er í ám og vötnum. Litlum sögum fer af gróða þeirra sem veiðarnar stunda, en veiðileyfin eru seld á markaðsvirði og verð ákvarðast af framboði og eftirspurn. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands mat umfang þessara veiðigjalda árið 2018. Niðurstaða könnunarinnar var að þetta ár hefðu veiðileyfi í ám og vötnum á Íslandi verið seld fyrir 5,2 milljarða króna miðað við verðlag ársins 2020.

Til eru eldri tölur um sölu sportveiðileyfa. Árið 2004 var umfang þeirra um 1,2 milljarðar króna og 2009 rúmlega 2,5 milljarðar (verðlag 2020). Verðið hefur fjórfaldast á um 15 árum. Þó að margir veiðimenn kvarti undan verðinu deila fáir um verðmyndunina. Hún ræðst einfaldlega af framboði og eftirspurn.

Stjórnarflokkarnir hafna því aftur á móti að nýta hið ágæta tæki markaðinn. Veiðiárið 2016-17 greiddu íslenskir útgerðarmenn aðeins tvöfalt meira fyrir Íslandsmið en sportveiðimenn fyrir sína veiðidaga. Flestir hristu hausinn yfir slíkri fásinnu.

Hvað skyldu útgerðarmenn hafa greitt fyrir þá afþreyingu að veiða á Íslandsmiðum árið 2020?

Heldur minna (rétt lesið) en sportveiðimennirnir eða 4,8 milljarða króna! Finnst nokkrum sem ekki er á mála hjá útgerðinni það eitthvert vit?

Í markaðsleið felst að árlega er hluti kvótans boðinn upp. Hlutfallið gæti verið milli 5 og 10% á ári. Hver útgerð fær þá endurgjaldslaust 90-95% af kvóta fyrra árs, en er heimilt að bjóða í hinar heimildirnar. Nýir aðilar geta líka tekið þátt í uppboðinu. Leiðin er sanngjörn og leiðir til hagræðingar, stöðugleika og hámarks arðsemi. Þjóðin fær loksins sitt.

Forréttindin hverfa. Flestar þjóðir hafa lagt af kerfi aðals og lénsherra meðan vinstri stjórnin, undir forystu VG, festir í sessi nýja yfirstétt.

Deila:

Facebook
Twitter
Auðlindaákvæði

Fleiri greinar

Aðallinn veiðir sér til gamans

Útgerðarmenn telja að fiskimiðin séu þeirra eign. Lagaákvæðið um „sameign þjóðarinnar“ sé merkingarlaust. Stjórnmálamenn hafa

Þjóðskáldið segir sína skoðun

Hverju mannsbarni er kunnugt að úr innsta valdahring Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og

Kvótaþegarnir gegn almenningi

Skýrasta og jafnframt mikilvægasta dæmið úr íslenskum veruleika eru deilurnar um auðlindarentu í sjávarútvegi. Þar