Kvótaþegarnir gegn almenningi

Gylfi Magnússon

Hvernig sérhagsmunirnir ráða

Skýrasta og jafnframt mikilvægasta dæmið úr íslenskum veruleika eru deilurnar um auðlindarentu í sjávarútvegi. Þar hafa tiltölulega fáir aðilar, þ.e. kvótaþegar, mikla hagsmuni af því að viðhalda núverandi kerfi, sem felur í grundvallaratriðum í sér að ríkið afhendir þeim aðganginn að auðlindinni, þ.e. fiskveiðikvótana, ókeypis eða gegn málamyndagjaldi. Þeir geta síðan gert það sem þeir vilja við hann, nýtt hann sjálfir eða leigt eða selt öðrum.

Mun eðlilegra væri vitaskuld að ríkið myndi selja eða leigja kvótann á markaðsverði, þannig rynni auðlindarentan til alls almennings. Engin haldbær hagkvæmnirök eru fyrir því að gefa slíka kvóta. Markaðsviðskipti eftir úthlutun tryggja að þeir lenda í höndunum á þeim sem geta búið til mest verðmæti úr þeim, hvort sem kvótarnir eru gefnir eða seldir í upphafi. Veitt yrði jafnmikið eftir sem áður ef ríkið seldi kvótana á markaði og með sömu tækni. Gjaldeyristekjur af útflutningi myndu ekkert breytast. Mjög lág auðlindagjöld nú, langt undir verðmæti þess sem er afhent, breyta myndinni lítið. Eftir sem áður rennur megnið af auðlindarentunni til annarra en almennings.

Um þetta hefur verið deilt áratugum saman á Íslandi. Niðurstaðan hefur alltaf verið sú sama. Harkaleg og einbeitt hagsmunabarátta hefur tryggt kvótaþegunum sigur. Þar er öllum ráðum beitt, skipulögðum áróðri í fjölmiðlum og gegndarlausum fjáraustri til útgáfu þeirra sem best nýtast og hatrammri baráttu gegn lítt leiðitömum fjölmiðlum. Ríkulegum styrkjum er beint til stjórnmálaflokka og einstakra frambjóðenda og haldið er úti öflugu félagsstarfi með fjölda manns á launum við að breiða út boðskapinn.

Þetta er kennslubókardæmi um hagsmunabaráttu sem margborgar sig fyrir þá sem standa í henni. Kostnaðurinn er vissulega verulegur en ávinningurinn miklu meiri. Kvótar að verðmæti milljarða eru afhentir ókeypis en þjóðin fær í sárabætur fiskisúpu fyrir nokkrar milljónir einu sinni á ári og auðlindagjald sem er e.t.v. svipuð upphæð og ríkið kostar til vegna þjónustu við greinina með rekstri stofnana eins og Landhelgisgæslu og Fiskistofu og sjávarútvegsráðuneytisins.

„Deilan kristallast í átökum um auðlindaákvæði nýrrar stjórnarskrár“

Deilan kristallast í átökum um auðlindaákvæði nýrrar stjórnarskrár, þar sem annars vegar er lagt til að ríkið geti veitt leyfi til hagnýtingar náttúruauðlinda sem eru sameiginleg eign þjóðarinnar gegn fullu gjaldi og hins vegar einfaldlega óbreytt fyrirkomulag. Fullt gjald er forsenda þess að jafnræðis þegnanna sé gætt, þ.e. örfáum ekki afhent sameiginleg verðmæti að gjöf á kostnað annarra. Það þarf ekki að lesa bók Olson til að sjá að síðari niðurstaðan mun hins vegar nær örugglega verða ofan á.

Gjafakvótakerfið er sem fyrr segir skólabókardæmi um þetta en fleira má nefna. Slíkt reglunám var ein forsenda óhamins vaxtar íslenska fjármálakerfisins á fyrstu árum aldarinnar. Nýeinkavædd fjármálafyrirtækin og eigendur þeirra ruddu öllum hindrunum á braut með einum eða öðrum hætti. Slagkrafturinn var gríðarlegur og fjárhagslegir hagmunir miklir. Ísland átti að verða alþjóðleg fjármálamiðstöð. Ríkasta land í heimi!

Skammlíf gremja neytenda yfir nýjasta hneykslinu breytir stundum einhverju til skamms tíma en svo fer athyglin annað. Þeir sem hafa ríka sérhagsmuni gleyma þeim hins vegar ekki auðveldlega. Það sagði Olson okkur.

Deila:

Facebook
Twitter
Auðlindaákvæði

Fleiri greinar

Aðallinn veiðir sér til gamans

Útgerðarmenn telja að fiskimiðin séu þeirra eign. Lagaákvæðið um „sameign þjóðarinnar“ sé merkingarlaust. Stjórnmálamenn hafa

Þjóðskáldið segir sína skoðun

Hverju mannsbarni er kunnugt að úr innsta valdahring Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og

Kvótaþegarnir gegn almenningi

Skýrasta og jafnframt mikilvægasta dæmið úr íslenskum veruleika eru deilurnar um auðlindarentu í sjávarútvegi. Þar